Fréttir og Viðburðir

hundagerdi
02 Jan, 2024
Hvutti, félag hundaeigenda á Suðurnesjum var stofnað þann 23. nóvember 2022 og er því orðið rétt rúmlega ársgamalt. Hlutverk og takmark þess er að efla hundamenningu á Suðurnesjunum og hlúa að hundum og eigendum þeirra. Allir hundaeigendur (og áhugamenn um hunda) á Suðurnesjum eru hvattir til að ganga í félagið vegna þess að því fleiri sem við erum því öflugri verðum við og getum væntanlega komið fleiri málum í gegn sem varða hundahald í þéttbýli og hagsmuni þeirra. Við þyggjum allar hendur og huga félaginu til framdráttar. Ævar Eyjólfsson er formaður félagsins og hvatamaður að stofnun þess og hefur lagt fram ómælda vinnu til að gera þennan draum okkar að veruleika. Ævar hefur kynnt sér reglugerðir um hundahald í flestum bæjarfélögum sem og höfuðborginni og komist að því að flestar reglugerðirnar eru eldgamlar og úreltar. Til dæmis er “Samþykkt um hundahald á Suðurnesjum” frá 1. september 1987 og talin eru upp þau sveitarfélög sem samþykktin nær yfir og þau eru eftirfarandi. Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppur, Gerðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur og Hafnahreppur. Þar segir ennfremur: “Hundahald er bannað innan ofangreindra sveitarfélaga á Suðurnesjum að undanskildum þarfahundum á lögbýlum, leitarhundum og hundum til aðstoðar blindu og fötluðu fólki samkvæmt læknisráði“ Það þarf nauðsynlega að endurskrifa þessa reglugerð og koma henni meira til nútímans. T.d er lítið talað um hundahald/dýrahald í fjöleignarhúsum, einungis eftirfarandi málsgrein: Hundahald í sambýlishúsum er háð því að eigendur/umráðamenn íbúða eða stjórn húsfélaga samþykki slíkt og ber umsækjanda að leggja fram skriflegt samþykki þeirra með umsókn sinni til hundahalds. Meðfylgjandi er slóð á reglugerðina svo hægt er að lesa hana í heild sinni: Samþykkt um hundahald á Suðurnesjum – Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja (hes.is) Hér má sjá reglugerðina sem Alþingi hefur samþykkt sem lög um hundahald í fjölbýlishúsum: : 26/1994: Lög um fjöleignarhús | Lög | Alþingi (althinsegi.is) Samþykkt Reykjavíkurborgar um hundahald er mun ítarlegri og nær okkur í tíma eða frá því 11. mars 2022 og útgefin 25. mars sama ár og hún tekur á mun fleiri þáttum en sú fyrrnefnda og er slóðin á hana eftirfarandi: Samþykkt um hundahald í Reykjavíkurborg. (reykjavik.is) Félagið er nú að ráðast í það stóra verkefni að útbúa gott hundagerði fyrir lausagöngu hunda. Það hefur tilfinnanlega vantað gott svæði þar sem bestu vinir okkar geta hlaupið um frjálsir og óheftir. Reykjanesbær hefur sýnt félaginu þann velvilja að leggja því til land, um 6.000 m2, við æfingasvæði Njarðvíkur bak við Reykjaneshöllina. Hvutti mun nú leggja sig fram um að byggja upp gott og stórt aflokað gerði. Svæðið er vel staðsett innan bæjarfélagsins og er öll aðkoma að því mjög góð og gnægð bílastæða. Það er stór draumur um að svæðið verði með fjölbreyttum leiktækjum fyrir bæði tví- og ferfætlinga, lýsingu á svæðinu og góð skýli þar sem fólk getur setið til skjóls fyrir veðri og vindum. Göngustígar verða gegnum grassvæði sem verður með litlum hæðum og hólum. Þetta eru töluverðar framkvæmdir og kosta þær líka skildinginn og þyggur félagið alla þá aðstoð sem býðst til að hundagerðið geti orðið að virkilega aðlaðandi stað til að vera á með vinunum í frjálsum leik. Teikningar af svæðinu eru tilbúnar og verða kynntar á nýju ári. Hjólastólaaðgengi verður haft gott svo að sem flestir geti notið svæðisins með sínum bestu vinum. Hönnun: Bjarnheiður Erlendsdóttir
03 May, 2023
Hvolpanámskeið
Sýna fleiri viðburðir
Share by: